Súlutindar og Lómagnúpur í Maí 2023

2023 höfum við ákveðið að sleppa stórri jöklagöngu en halda í staðinn í helgarferð í Núpsstaðarskóg og ganga á Súlutinda og Lómagnúp ef veður og aðstæður leyfa. Við eigum bókað í litla skálanum sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn eiga, sem er lítill og krúttlegur skáli sem rúmar um 12 manns í tveimur 6 manna rúmstæðum.
Gott tjaldstæði er við skálann, sem og salernishús.

Við ætlum að hafa sama hátt á og undanfarin ár og búa til smá svigrúm til þess að geta valið okkur gott veður og tökum því frá dagana 18 – 21. maí í þessa tveggja daga gönguferð. Fimmtudagurinn 18 er uppstigningardagur þannig að nauðsynlegt gæti orðið að taka frí á föstudegi ef veðuraðstæður kalla á það
Með því móti er hægt að fara austur á miðvikudagskvöld ef mikið betri veðurspá er á fimmtudag og föstudag heldur en um helgina, en við munum eins og alltaf fylgjast vel með veðurspá og gefa út endanlega áætlun á Facebook með eins löngum fyrirvara og unnt er.

Núpsstaðaskógar og Hæðir, er einstaklega fallegt svæði. Skógarnir eru grænt og gróið svæði þar sem Núpsáin rennur á milli stórbrotinna klettamyndanna og Hæðir rísa ofan þeirra, berangurslegt svæði með stórkostlegu útsýni inn á Vatnajökul.

Verð ferðarinnar er kr. 27.000 fyrir þá sem gista inni í skála en 20.000 án gistingar.

Síðasti skráningardagur er miðvikudagur 10 maí!

Dagskrá ferðarinnar:

Dagur 1: Mætum í Núpsstaðarskóga, komum okkur fyrir og undirbúum okkur fyrir göngu morgundagsins

Dagur 2 : Gengið inn með Núpsá, inn í Núpsstaðarskóga og upp að Klifinu. Tökum okku góðan tíma í að hjálpast að við að brölta þar upp og tökum síðan stopp við Tvílitahyl þar sem bergvatnsáin Hvítá sameinast Núpsánni. Þaðan höldum við áfram nokkra stund í grónu landi upp með ánni en beygjum síðan til austurs upp á Hæðir.
Þegar komið er upp á Súlutinda sem eru austan Hæða blasir við víðátta Skeiðarárjökuls og frábært útsýni til Skaftafellsfjallanna.
Síðan höldum við til suðurs og finnum okkur leið fram af fjallinu aftur í skálann
Þetta er drjúg dagsganga, eitthvað rúmir 20 km með hækkun/ lækkun um 900 metra.

Dagur 3: Ekið inn jeppaslóð að uppgöngustað á Lómagnúp. Þaðan er gengið inn Skorargilið og upp á fjallið að vestanverðu. Á einum stað er nokkuð bratt klif þar sem við notum keðju sem búið er að koma fyrir okkur til stuðnings.
Göngum síðan fram fjallið og njótum útsýnisins, sem ku vera býsna gott í björtu veðri.
Vegalengd göngunnar er um 16 km. og hækkun/ lækkun rúmir 1.100 metrar.
Eftir göngu höldum við síðan heim á leið

Eins og venjulega munum við aðlaga dagskrána aðstæðum og færa/ breyta göngum ef veður eða annað krefjast þess.

Við hlökkum til að sjá ykkur í Núpsstaðarskógum


Útbúnaður, ekki tæmandi listi en svona til viðmiðunar

Göngufatnaður

  • Góðir uppháir gönguskór
  • Mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís
  • Peysa úr ull eða flís
  • Jakki, softshell
  • Göngubuxur

Í bakpokanum

  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Húfa/ buff, og vettlingar
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Göngustafir
  • Nesti fyrir daginn
  • Göngunasl, þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf