
Þetta árið stefnum við í Kerlingarfjöll og ætlum að koma á svæðið á föstudagskvöldi og ganga um þetta fallega svæði laugardag og sunnudag.
Kerlingarfjöllin eru einstakt svæði austan Kjalvegar sem býður upp á glæsilega fjallstinda, falleg jarðhitasvæði og einnig jökla sem eru því miður á hröðu undanhaldi.
Í Kerlingarfjöllum er verið að byggja upp öfluga hálendisferðamiðstöð og höfum við tryggt okkur 16 innisvefnpláss sem verður úthlutað á þá sem fyrstir greiða staðfestingargjald í ferðina
Verð ferðarinnar er kr. 28.000 og staðfestingargjald 15.000
Innifalin er gisting í skála og leiðsögn í 2 göngudaga.
Dagskrá ferðarinnar:
Föstudagur 7. Júlí: Mætum í Kerlingarfjöll, komum okkur fyrir og tökum kvöldgöngu á Ásgarðsfjall ef veður verður okkur hagstætt.
Laugardagur 8. Júlí. : Gengið frá Ásgarði, vestan Mænis, gegnum Sléttaskarð og þaðan ofan í Hverabotn. Þaðan göngum við síðan út fyrir Mænisjökul og ofan í Hveradali. Svo liggur leiðin til baka utan í Hveradalahnúk og Ásgarðshrygg í Ásgarð. Þetta er drjúg dagsganga, eitthvað rúmir 20 km með hækkun/ lækkun um 900 metra.
Síðan stefnum við að því að hafa sameiginlegan kvöldmat og grilla eitthvað gott um kvöldið.
Sunnudagur 9. Júlí: Ekið inn jeppaslóð að uppgöngustað á Fannborg. Gengið áfram yfir Snækoll og Snót að þaðan á Loðmund sem er með flottari tindum og ansi brattur efst uppi
Síðan höldum við til baka að bílastæðinu um Jökulkinn
Vegalengd göngunnar um 10 km. og hækkun/ lækkun hátt í 1.100 metra.
Eftir göngu höldum við síðan heim á leið
Eins og venjulega munum við aðlaga dagskrána aðstæðum og færa/ breyta göngum ef veður eða annað krefjast þess.
Við hlökkum til að sjá ykkur í Kerlingarfjöllum í Júlí
Útbúnaður, ekki tæmandi listi en svona til viðmiðunar
Göngufatnaður
- Góðir uppháir gönguskór
- Mjúkir göngusokkar
- Nærföt, ull eða flís
- Peysa úr ull eða flís
- Jakki, softshell
- Göngubuxur
Í bakpokanum
- Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
- Húfa/ buff, og vettlingar
- Sólgleraugu
- Sólarvörn og varasalvi
- Göngustafir
- Nesti fyrir daginn
- Göngunasl, þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
- Vatnsbrúsi
- Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf